Skip to main content
GeðheilbrigðismálGreinar

Ekkert djók heldur lífsins alvara

By maí 26, 2016No Comments

Kvíðaröskunin félagsfælni er það sem ég þekki best til. Hún er þriðja algengasta geðröskunin, á eftir þunglyndi og alkóhólisma. Á hverjum tíma glíma 5–15% einstaklinga við félagsfælni eða 15.000 til 45.000 þúsund Íslendingar.

Höfundur er Eymundur L. Eymundsson, meðlimur í Grófinni geðverndarmiðstöð. Ráðgjafi og félagsliði.

Höfundur er Eymundur L. Eymundsson, meðlimur í Grófinni geðverndarmiðstöð. Ráðgjafi og félagsliði.

Alvarlegt þunglyndi leggst einhvern tíma á að minnsta kosti 25% kvenna og 12% karla. Á hverjum tíma glímir einn af hverjum fjórum við geðheilsuvanda af einhverjum toga. Það gera 25% af öllum Íslendingum. Hér á landi missum við þrjá til fjóra einstaklinga á mánuði fyrir eigin hendi. Milli 500 og 600 reyna sjálfsvíg á hverju ári og eru í aukinni hættu á eftir. Við verðum að hefja strax fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir börn og ungmenni. Hvað þarf til að fagmenn séu ráðnir í alla grunn- og framhaldsskóla?

Hver eru rökin með því að bíða? Andleg veikindi og vanlíðan fara ekki í manngreiningarálit. Þetta er lífsins alvara þar sem hugurinn er fangelsi niðurbrotinna hugsana. Sem betur fer er umræðan að opnast.

Sagan mín
Ég hef þekkt andleg veikindi og vanlíðan frá barnæsku án þess að þekkja einkennin. Ég væri eigingjarn ef ég myndi ekki deila minni reynslu til að gefa öðrum von og hjálp. Kvíðinn hófst þegar ég byrjaði í grunnskóla. Hann hafði áhrif á námið, einbeiting var lítil og mér gekk erfiðlega að læra. Um 12 ára aldur háði kvíðinn mér en ég setti upp grímu til að lifa af út af sjálfsvígshugsunum vegna félagsfælni. Ég skammaðist mín fyrir mína líðan og sjálfstraust og einbeiting var lítil. Ég leit út fyrir að funkera félagslega en eftir fimmtán, sextán ára aldur fór ég aldrei með félögunum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði ekki að fara og þorði ekki að segja þeim af hverju.
Ég vissi í rauninni ekki hvað var að mér. Ég réði ekkert við taugakerfið, roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma. Það gerðist bara án þess ég réði nokkru um það. Ég notaði áfengi til að slá á líðanina. Þegar félagarnir voru að drekka gat ég mætt og hafði þá oftast drukkið í mig kjark. Ég forðaðist flestar aðstæður og alltaf þegar ég lagðist til svefns á kvöldin kveið ég fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum, kveið fyrir að þurfa að hitta annað fólk. Ég gat ekki ímyndað mér að ég ætti við andleg veikindi að stríða. Ég hélt að ég væri öðruvísi og var viss um að
enginn myndi trúa mér ef ég segði hvernig mér liði. Ég var viss um að allir myndu baktala mig, dæma mig og gera lítið úr mér og var nógu brotinn fyrir að það hefði ekki verið á bætandi. Ég hélt því áfram að birgja inni vanlíðan og vera með grímu.
Ég hélt að andlega veikt fólk væri eins og það sem maður sér í bandarískum bíómyndum, lokað inni og helst í spennitreyju. Það voru einu skiptin sem ég sá fólk með andleg veikindi. Ég greindist með slitgigt 1994 og er þá 27 ára gamall. Ég þurfti að fara í mjaðmaliðaskipti 1998 og aftur sömu megin 2004. Ég varð óvinnufær eftir aðgerðina 2004 og má segja að það hafi bjargað mínu lífi. Í verkjaskóla á Kristnesi árið 2005 skildi ég í fyrsta skipti hvað ég hafði glímt við frá barnæsku þegar ég fékk bæklinga um kvíða, félagsfælni og þunglyndi.
Þessir bæklingar voru um mig. Öll þessi skömm sem ég hafði borið öll mín ár breyttist í þakklæti fyrir að hafa lifað af. Það voru raunverulegar ástæður fyrir minni vanlíðan og það var von. En til þess þurfti ég að taka niður grímuna og fá hjálp. Manneskjan ég er sú sama þótt gríman hafi verið tekin af. Ég hafði tækifæri til að byggja mig upp og öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Ég þurfti að vinna fyrir því að taka niður grímuna og nýta mér hjálpina með opnum huga.
Hjálpin
 
Á Kristnesi fékk ég strax hjálp hjá sálfræðingi og fór svo í þriggja mánaða samtalsmeðferð hjá heimilislækni. Ég fór í meðferð hjá SÁÁ árið 2006 og hef ekki drukkið í 10 ár, fór í Starfsendurhæfingu Norðurlands og þurfti að leita mér hjálpar árið 2008 á geðdeild vegna þunglyndis. Þar var ég í fjórar vikur og fór í framhaldinu í félagskvíðahóp á geðdeild.
Ég hef þrisvar sinnum farið á geðsvið Reykjalundar í hugræna atferlismeðferð og núvitund. Hugræna atferlismeð ferðin beinist m.a. að atferli í aðstæðum og vinnu með neikvæðar hugsanir. Ég fer reglulega á Heilsustofnun í Hveragerði til að halda skrokknum gangandi og um leið þeirri andlegu.
Ég kláraði Ráðgjafaskóla Íslands í Reykjavík árið 2009, var frá 2009 til 2012 í Hugarafli í Reykjavík, flutti norður í lok árs 2012 og er einn af stofnendum Grófarinnar sem er geðverndarmiðstöð sem byggist á hugmyndafræði valdeflingar og batamódels. Frá 2008 hef ég minnkað við mig geðlyf úr níu
töflum í tvær. Ég nýtti mér hjálpina og á því líf og lífsgæði. Ég er ekki fórnarlamb heldur einstaklingur sem gekk í gegnum erfiðleika en lifði af það sem er ekki sjálfgefið. Ég vil nýta mína reynslu til að gera samfélaginu grein fyrir alvarleika andlegra veikinda og vanlíðan og vona að ráðamenn sjái miklvægi þess að fagmenn séu ráðnir í grunn- og framhaldsskóla landsins til að hjálpa börnum og ungmennum áður en það geti orðið of seint.
Ég vona að einstaklingar sem glíma við erfiðleika geti nýtt sér hjálp með opnum huga og gefi sér tækifæri og tíma.
Close Menu