Skip to main content
Fréttir

Fagnað með hugsjónakonunni og fálkaorðuhafanum

By júlí 17, 2017No Comments

Hugarafl hélt upp á það að Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og stofnanda Hugarafls var veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní síðastliðinn fyr­ir frum­kvæði á vett­vangi geðheilbrigðismála. Hugaraflsfólk og velunnarar ásamt vinum og vandamönnum Auðar fjölmenntu og var boðið upp á veitingar, ræðuhöld og fleira.

Fögnuðurinn var undirbúinn án vitundar Auðar og kom henni skemmtilega á óvart þegar hún mætti í Borgartúnið og hitti alla.  Um kvöldið birtist falleg kveðja með þakklæti á Facebook frá Auði.

„Ég er djúpt snortin yfir lífinu og tilverunni. Í dag mætti ég svo ótrúlegum kærleika, hvatningu og virðingu frá mínu fólki. Mínu fólki í Hugarafli, fjölskyldu minni og vinum. Við fögnuðum Fálkaorðunni með stæl, töluðum, áttum magnaða samveru, fengum ótrúlegar veitingar, ég fékk gjafir og heillaóskir. Ég er þakklát, stolt af mínu fólki og baráttunni okkar fyrir bættu geðheilbrigðiskerfi. Baráttunni er ekki lokið, sameinuðum stöndum vér og látum eigi deigann síga. Fögnum lífinu, kærleikanum og fálkanum góða. Takk fyrir mig elsku fólk ❤️“

Klikkið tók nýverið viðtal við Auði þar sem meðal annars var komið inn á starfsemi Hugarafls, valdeflinguna, batann og baráttu fyrir hugsjónum sem geta bætt geðheilbrigðiskerfið.  Auður sem jafnframt er for­stöðu­maður Geð­heilsu – Eft­ir­fylgd, stofnaði Hugarafl árið 2003 ásamt fjórum ein­stak­lingum með lifða reynslu.  Markmiðið var að inn­leiða breyt­ingar á geð­heil­brigð­is­kerfið. Þökk sé þeirra braut­ryðj­enda­starfi og með óhefð­bundnum leiðum í bata­ferl­inu hafa Auður og Hug­ar­afl rutt veg­inn með því að inn­leiða nýja nálgun á þjón­ustu við fólk með geð­ræna erf­ið­leika.  

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan en þar má einnig sjá nokkrar myndir frá fögnuðinum.

Hugarafl óskar Auði innilega til hamingju með heiðurinn og þakkar öllum sem mættu og glöddust með okkur.