Geðheilsa eftirfylgd

Geðheilsa-Eftirfylgd er samfélagsleg geðþjónusta þar sem teymi fagfólks og notenda sinnir batahvetjandi stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur. Forvarnir, endurhæfing, eftirfylgd, fræðsla og ráðgjöf í bataferli eru áherslur stöðvarinnar og hverjum einstaklingi er mætt út frá eigin forsendum.

Einstaklingum/fjölskyldu sem leita eftir þjónustu er boðið uppá tengil sem styður einstakling og fjölskyldu í bataferlinu. Einstaklingar eða aðstandendur geta nálgast þessa þjónustu á eigin forsendum eða í samvinnu við fagaðila. Hægt er að hafa samband í síma, heimsækja stöðina og/eða senda beiðni.

Þjónustan er meðal annars fólgin í viðtölum, fjölskyldufundum, vitjunum og öðrum stuðningi sem við á hverju sinni s.s á vinnustað eða í skóla. Hópastarf/endurhæfing fer einnig fram á stöðinni og má þar nefna sjálfsstyrkingarhópa, batasmiðju, jóga, virknihópa og fleira. Sjá stundaskrá.

Í teymi fagaðila og notenda eru tveir iðjuþjálfar, þrír sálfræðingar, jógakennari og Iðjuþjálfi Hugarafls. Teymið er sveigjanlegt, vinnur gjarnan á vettvangi t.d. í heimavitjunum, farið er í skóla og á vinnustaði, boðið er uppá stuðningsviðtöl, fjölskyldufundi og annan stuðning sem við á hverju sinni.

Tilgangur þjónustunnar er að bjóða fólki með geðræna erfiðleika og aðstandendum þeirra eftirfylgd og ráðgjöf, alhliða stuðning og endurhæfingu. Stuðlað er að forvörnum með auðveldu aðgengi og sveigjanleika. Markmiðið er að efla virkni og þátttöku einstaklingsins í samfélaginu, efla og viðhalda færni og fyrirbyggja félagslega einangrun. Með aðgengilegri þjónustu er stuðlað að fækkun sjúkrahúsinnlagna og aðgengi að eftirfylgd m.a. í kjölfar innlagna.

Lögð er áhersla á að skjólstæðingar séu virkir í bataferlinu og að þjónustan sé mótuð út frá þörfum og reynslu skjólstæðinga og aðstandenda þeirra. Stuðlað er að bata og bjargráðum í bataferli.

Unnið er eftir batamódelinu og  valdeflingu.

Geðheilsa-Eftirfylgd er í nánu samstarfi við Hugarafl, sem er samstarfshópur notenda og fagfólks þar sem notendaþekking og hópastarf er í forgrunni. Geðheilsa-Eftirfylgd og Hugarafl starfa samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar(empowerment) og batamódeli (PACE, personal assistance in community existence). Lögð er áhersla á að greina hvað virkar í bataferlinu og hvað ekki, vinna á forsendum hvers og eins einstaklings, ásamt því að byggja upp tengslanet sem styður við notandann.

Nálgun stöðvarinnar hefur gefið góða raun fyrir einstaklinga með geðraskanir. Byggt er á að mæta fólki strax og vinna með þær hindranir sem upp hafa komið vegna geðrænna erfiðleika og fylgja síðan fólki eftir eins lengi og þörf krefur. Markmiðið er bati og litið er á erfiðleikana sem tímabundna og að hægt sé að ná tökum á þeim. Hópurinn sem til stöðvarinnar leitar er mjög breiður og áherslur mismunandi hjá hverjum og einum.

Forstöðumaður: Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi