Skip to main content
Greinar

Geðraskanir, meðferð á villigötum?

By febrúar 28, 2015No Comments

Steindór J. Erlingsson

Reglulega berast fréttir af mikilli ávísun geðlyfja hér á landi. Það er hins vegar sjaldgæft að sjá umræðu þar sem horft er á ávinninginn af geðlyfjaneyslunni í gagnrýnu ljósi, eins og Teitur Guðmundsson læknir gerir í greininni Þunglyndi, meðferð á villigötum? sem birtist í Fréttablaðinu í byrjun september á síðasta ári. Hyggst ég leggja út frá grein Teits og spyrja hvort geðlyfin sem eru notuð í meðferð þunglyndis og tveggja annarra alvarlegra geðraskana skili þeim árangri sem til er ætlast.

Engar vísbendingar

Nýlega svaraði Tom Insel, forstjóri bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, spurningunni neitandi. Insel segir að þótt við höfum á undanförnum áratugum orðið vitni að sífellt lækkandi dánartíðni vegna krabbameina, heilablóðfalla, og hjarta- og æðasjúkdóma „séu engar vísbendingar um lækkun sjúkdómsbyrði eða dauðsfalla fyrir nokkurn geðsjúkdóm“.

Insel beinir sjónum sínum sérstaklega að þremur stórum langtímarannsóknum á virkni lyfjameðferða við geðklofa (CATIE), geðhvörfum (STEP-BD) og þunglyndi (STAR*D). Þessar rannsóknir voru hannaðar með það að markmiði að líkja eins og hægt er eftir þeim raunveruleika sem læknar standa frammi fyrir frá degi til dags. Var m.a. stuðst við venjulega sjúklinga en ekki sérvalda eins og tíðkast í lyfjarannsóknum lyfjafyrirtækja.

Niðurstöður CATIE og STEP-BD voru afleitar. Segir Insel að þrátt fyrir öll þau lyf sem nú standi til boða séu fáar vísbendingar um að langtíma batahorfur einstaklinga með geðklofa og geðhvörf hafi breyst verulega á undanförnum áratugum.
Skila verri árangri

Ef horft er á STAR*D rannsóknina er myndin flóknari. Eins og Insel bendir á upplifðu einungis 31% þátttakenda í rannsókninni rénun (remission) þunglyndiseinkenna eftir að hafa tekið SSRI þunglyndislyf í 14 vikur. Þetta telst varla góð niðurstaða. En eins og fram kemur í bókinni Mad Science: Psychiatric Coercion, Diagnosis and Drugs (bls. 223-24) benda rannsóknir óháðra aðila á STAR*D gögnunum til þess að niðurstaðan sé í raun miklu verri. Hér gæti legið skýringin á staðhæfingu Teits þess efnis að ekki gangi nægilega vel að meðhöndla þunglyndi. „Þrátt fyrir að við eyðum milljörðum króna árlega í neyslu [þunglyndislyfja] lætur árangurinn á sér standa“.

Af famansögðu ætti að vera ljóst að þau lyf sem notuð eru til þess að meðhöndla geðklofa, geðhvörf og þunglyndi virðast skila mun verri árangri en almenningi hefur verið talin trú um. Ef eitthvað er að marka greinina Psychiatry and the Scientific Fallacy, eftir svissnesku geðlæknanna Michael Saraga og Friedrich Stiefel, er hluti skýringarinnar á misræminu sú að geðlæknar virðast eiga erfitt með að horfast í augu við sannleikann.

Þrátt fyrir afleita niðurstöðu CATIE, STEP-BD og STAR*D rannsóknanna, auk annarra vandamála sem Saraga og Stiefel tiltaka í greininni, segja þeir lítið bera á umræðu um að geðlæknisfræðin standi mögulega frammi fyrir krísu, að ekki sé talað um „lágmarks hæversku og sjálfsgagnrýni“ þegar niðurstöður eru ræddar. Tvímenningarnir klikkja út með því að benda á augljósa staðreynd: Enginn vísindalegur grunnur er fyrir yfirlýsingum þess efnis að geðlæknisfræðin hafi á undanförnum áratugum gengið í gegnum „ótrúlegar framfarir“.

Eins og fram kemur í leiðara sem birtist árið 2012 í Schizophrenia Bulletin er ekki von á að ástandið batni mikið á næstunni. Þar bendir H. Christian Fibiger, sem hefur m.a. starfað sem háttsettur yfirmaður hjá Eli Lilly og Amgen, á að sum af þeim grundvallarvandamálum sem geðlæknisfræðin stendur frammi fyrir hafi leitt til þess að flest stærstu lyfjafyrirtækin hafa ýmist stórlega dregið úr eða hætt þróun nýrra geðlyfja.

Fibiger telur upp nokkur atriði sem mögulega geta leitt geðlyfjafræðina úr þessum ógöngum, en forsenda þeirra er „auðmýkt gagnvart vanþekkingunni sem við stöndum frammi fyrir og vilji til þess að leiða hugann að grundvallarbreytingum á geðlæknisfræðinni“.
Hvert stefnir?

Þessar hryggilegu upplýsingar um stöðu geðlyfjafræðinnar og virkni þeirra lyfja sem notuð eru til þess að meðhöndla geðklofa, geðhvörf og þunglyndi hljóta að kalla á umræður um hvert stefna beri í meðhöndlun þessara raskana. Eins og Teitur bendir á í sinni grein eru hagsmunir sjúklinganna miklir, enda gæti líf þeirra hugsanlega batna verulega ef við rötum af þeim villigötum sem við virðumst vera á.

Ein leiðin gæti falist í stórbættu aðgegni að sálfræðiþjónustu. Ef eitthvað er að marka nýlegan leiðara í The British Journal of Psychiatry er aðra útgönguleið mögulega að finna í breyttri áherslu innan geðlæknisfræðinnar, þ.e. með því að leggja miklu meiri áherslu á það sem gerist í samskiptum á milli einstaklinga í stað þess að einblína á hvað hrjáir einstakling sem er slitin úr félagslegu samhengi. Með öðrum orðum þarf að rannsaka félagslegar orsakir geðraskana miklu betur en nú er gert.

Höfundur er doktor í vísindasagnfræði og hefur lengi glímt við erfitt þunglyndi og kvíða.
Hann er höfundur greinarinnar Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni.
Laugardagur 28. febrúar 2015 16:00
kjarninn.is