Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Geðsjúkdómar ofgreindir

By júní 16, 2016No Comments

Right_brainMun fleiri eru nú greindir með geðsjúkdóma en áður, segir þekktur bandarískur geðlæknir sem staddur er hér á landi. Markaðssetning lyfjafyrirtækja sé stór ástæða þess.

Markaðssetning lyfjafyrirtækjanna hefur orðið til þess að fólk sem áður var talið heilbrigt er nú greint með sjúkdóma. Búið er að víkka út skilgreiningar á geðsjúkdómum segir Allen Frances,  þekktur bandarískur geðlæknir.

Frances er prófessor  í geðlækningum við háskólann Duke. Hann talaði á málþingi Geðhjálpar, Geðlæknafélags Íslands og fleiri heilbrigðisstétta á Grand hóteli í dag. Hann leiddi vinnu við greiningakerfið DSM4 og handbók fyrir bandaríska geðlækna. Þegar hann vann við greiningarkerfið voru um hundrað sjúkdómar skráðir í handbókina.  Núna hefur greiningarkerfið verið uppfært DSM5 og þar eru skráðir 300 sjúkdómar.

Frances, segir að skilgreiningar á geðstruflunum hafi verið rýmkaðar.

„Svo að margir sem áður töldust heilbrigðir eru nú taldir veikir. Meginástæða þessa er markaðsvinna lyfjafyrirtækjanna og önnum hlaðnir læknar sem hafa ekki tíma til að kynnast sjúklingum sínum.“

12% bandaríkjamanna taka þunglyndislyf og 4% bandarískra unglinga. 15 prósent bandarískra barna eru greind með athyglisbrest. Svipuð fjölgun á sér stað víðar og bendir Frances á íslenska rannsókn semHelga Zoega, Unnur A Valdimarsdóttir og fleiri gerðu.  

„Besta forspáin um hvort barn sé greint með athyglisbrest á Íslandi og í öðrum löndum er fæðingardagur þess. Ef barnið er yngst í bekknum er það tvisvar sinnum líklegra til  að vera greint með athyglisbrest heldur en elsta barnið í bekknum.  Við tökum því þroskaleysi og breytum því í geðröskun.“

„Hér í landi ykkar leggið þið ekki nóg fé til viðtalsmeðferðar en þið styðjið við lyfjagjöf. Þarna er ósamræmi því flestir með væg einkenni ættu fyrst að fara í viðtalsmeðferð en ekki á lyf en vegna þess hvernig endurgreiðslukerfið vinnur er mun auðveldara fyrir lækni að ávísa á lyf en að vísa til viðtalsmeðferðar.

Frétt birtist á Ruv.is