Skip to main content
Fréttir

Geðteymi utan stofnana verður lagt niður

By nóvember 20, 2017No Comments

Fréttin birtist í kvöldfréttum stöðvar 2 og má sjá hana hér fyrir neðan.

Í kvöldfréttum stöðvar 2 þann 19. nóvember var fjallað um fyrirhugaðar breytingar innan heilsugæslunnar sem verða til þess að áralöng reynsla og mikill árangur samstarfs á jafningjagrunni verður lagður niður.  Í staðinn eiga að koma sérfræðingateymi sem ætla sér að hafa samráð við notendur einu sinni á ári eins og lesa má í skýrslu um stofnun teymanna.  Slíkt fyrirkomulag er til skammar fyrir hverja þá sem tala um að hafa batamiðaða nálgun og valdeflingu að leiðarljósi, líkt og skýrsluhöfundar leyfa sér að gera.  En það skal jafnframt tekið fram að þeir embættismenn Reykjavíkurborgar og sérfræðingar heilsugæslu og LSH sem komu að gerð skýrslunnar töldu ekki ástæðu að hafa mikið samráð við notendur við gerð hennar.  Hvað þá að nýta hugmyndafræðina sem unnið er eftir í samstarfi Hugarafls og Geðheilsu – Eftirfylgdar.  Skýrslan er í raun ekki unnin í samræmi við það embættisbréf sem nefndin fékk í hendur.  Það er því nú þegar ljóst að verið er að færa þjónustuna aftur um áratugi með slíkum vinnubrögðum sem byggja fyrst og síðast á forræðishyggju og takmarkaðri þekkingu valdra sérfræðinga og embættismanna á stöðu fólks með geðrænan vanda.  Vanda sem oft á tíðum er félagslegur og verður ekki leystur með geðteymum sem leggja nær eingöngu áherslu á lyfjagjöf, enda um lítið annað talað í áðurnefndri skýrslu.  Sérfræðingateymi leysir til að mynda ekki félagslega einangrun með því að hitta skjólstæðinga sína í lokuðu kerfi, einu sinni í viku eða sjaldnar.

Hugarafl í samvinnu við Geðheilsu- Eftirfylgd hefur barist fyrir betri geðheilsu og bættri félagslegri stöðu skjólstæðinga sinna með því að vinna heildstætt að málum.  Boðið er upp á opið úrræði þar sem aðgengi er að sérfræðingum og notendum – og opið hús fyrir alla sem til okkar leita.  Notendur jafnt sem sérfræðingar koma að opnum fræðslum um ýmis málefni sem tengjast geðheilbrigði og sitja þar allir við sama borð.  Og fjölmargir fá von um bata þegar þeir sjá jafningja sína standa upprétta á ný eftir erfið veikindi.  Slíkan fjölda fyrirmynda er hvergi að sjá í geðteymum heilsugæslunnar sem nú á að koma á fót.  Enda ekki reiknað með samráði við slíkar fyrirmyndir nema einu sinni á ári.   Þar er heldur ekki unnið á samræmdan hátt til að taka á geðheilsu og félagslegum aðstæðum, heldur er einungis verið að útbúa millilið fyrir tvö kerfisbákn; heilbrigðiskerfið annars vegar og félagsþjónustu Reykjavíkur hins vegar.  Það er dapurlegt að til þess að báknin geti talað saman þurfi að leggja niður þjónustu sem horfir heildstætt á hlutina en ekki sitt í hvoru lagi líkt og núverandi kerfi gera.  Og það segir sig líka sjálft að fjölmargir munu enn og aftur falla á milli kerfanna og týnast.  Því með svona lokaðri og takmarkandi þjónustu er eingöngu verið að stækka möskvana, í stað þess að minnka þá.  Og í þetta sinn er jafnframt fyrirhugað að leggja niður opið úrræði sem áður var tilbúið að grípa þá sem ekki fengu þjónustu og var vísað frá þegar þeir pössuðu ekki inn í kerfin.  Hvert eiga þeir aðilar nú að leita?  Ekkert annað úrræði er til staðar sem býður upp á slíka heildstæða opna nálgun eins og samstarf Hugarafls og Geðheilsu-Eftirfylgdar hefur veitt síðustu árin.

Það er ósk og krafa okkar Hugaraflsfólks, að sú útfærsla sem dregin er upp í skýrslu um stofnun geðheilsuteyma, verði endurskoðuð frá grunni.  Og rödd notenda verði þar virt til jafns við sérfræðinga og embættismenn sem í skýrslunni búa sér til sinn þægindaramma á kostnað raunverulegrar samþættrar þjónustu sem vinna á að samkvæmt aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum.  Slík vinnubrögð sem sjást í skýrslunni eru einfaldlega ekki í boði lengur á Íslandi árið 2017.