Skip to main content
Greinar

Góð ráð frá Kára Auðar Svanssyni- "Finndu fyrir óttanum en gerðu það samt"

By mars 20, 2015No Comments

1) Ráð það er ég hyggst deila með lesendum gæti gagnast öllum þeim sem eiga við einhvers konar frestunar- og flóttaáráttu að stríða; þ.e. hneigjast til að fresta leiðingjörnum eða kvíðvænlegum verkum og aðstæðum, eða hreinlega flýja undan þeim, undir kjörorðinu ´illu er best ólokið´.
2) Ráð mitt felst einfaldlega í því að þegar fólk stendur frammi fyrir verkefnum eða aðstæðum sem því finnst kvíðvænleg, án þess að þau séu á nokkurn hátt hættuleg, þá temji það sér að hugsa: „finndu fyrir óttanum, en gerðu það samt“ (á ensku: „feel the fear, but do it anyway“). Ennfremur ráðlegg ég fólki að hugsa til þess hve ánægt það verði með sjálft sig eftirá, þegar hinar kvíðavekjandi aðstæður eða verkefni eru að baki, og finni sjálfstraustið eflast við að hafa ekki flúið erfið verk eða kringumstæður, heldur hleypt í sig kjarki og látið sig hafa það.
3) Ráðið skilar þeim árangri að lífsgæði þeirra sem eftir því fara eflast til mikilla muna, og tala ég þar útfrá eigin reynslu. Ég hef ekki tölu á þeim áhugaverðu viðburðum sem ég hef misst af vegna ofangreindrar flóttaáráttu: þ.e. ég óttaðist að ef ég færi á viðburðinn myndu geðrofseinkennin láta á sér kræla. Nú er öldin önnur, þökk sé ráðinu.
4) Eini gallinn sem gæti fylgt ráðinu eru sá að það gæti snúist uppí fífldirfsku: þ.e. að fólk hætti alveg að gæta eðlilegrar varúðar og ani út í hluti sem eru sannarlega ekki aðeins kvíðvænlegir heldur einnig háskalegir. Líkurnar eru slíku eru þó hverfandi, því flest fólk er jú skynsemisverur og kann fótum sínum forráð.

Fyrir hönd Vinjar,

Kári Auðar Svansson