Skip to main content
Fréttir

Hugarafl í Madrid

By janúar 19, 2017mars 16th, 2018No Comments
dinner

Hópurinn kynnti sér spænska matarmenningu á miðvikudagskvöldið.

Þriðjudaginn 10. janúar héldu fimm Hugaraflsmeðlimir á vit ævintýra til Spánar. Ferðinni var heitið til Madrid þar sem fyrsti fundur var haldinn í sam-Evrópsku verkefni. Verkefnið gengur undir nafninu Strong Young Minds og hefur það að markmiði að auka fræðslu og þekkingu ungmenna á aldrinum 14- 18 ára,  á fjölmörgum þáttum sem móta geðheilsuna. Meðal annars er fyrirhugað að útbúa námsskrá, kennslumyndbönd, handbók, borðspil og koma upp vefsíðu á 5 tungumálum, þar sem hægt verður að nálgast það efni sem útbúið verður.

Fimm félagasamtök frá fjórum löndum koma að verkefninu og hafa yfirumsjón með einstaka verkþáttum þess.  Auk Hugarafls frá Íslandi, eru Ask Yourself og Minte Forte frá Rúmeníu,  Ha moment frá Portugal og Scouts Valencians frá Spáni.  Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og Evrópa unga fólksins hefur veitt Hugarafli góðan stuðning við verkefnið.

Fundurinn á Spáni var í fyrsta skipti sem öll félagasamtökin hittast en áður höfðu samskipti að mestu farið um Skype, tölvupósta og samfélagasmiðla. Þessi fyrsti fundur var mjög vel nýttur til þess að aðilar næðu að kynnast innbyrgðis. Fljótlega var ljóst að auk mismunandi menningar milli landa vorum við með fjölbreyttan og öflugan hóp af hæfileikaríku fólki sem hafði margt fram að færa  til verkefnisins.   Sálfræðingar frá Minte Forte í Rúmeníu höfðu lokið við að taka saman og vinna úr upplýsingum sem hver samtök höfðu safnað frá rýnihópum í sínu landi.   Út frá þeim niðurstöðum var unnið í tveimur hópum til að útbúa annars vegar námsefnið og hins vegar borðspilið.  Hóparnir unnu fram á kvöld á fimmtudegi og hluti af tíma sem átti að nýta undir kynningu á myndbandaverkefninu var nýttur í áframhaldandi vinnu í þessum hópum.  Föstudagurinn var auk þess nýttur í að fara yfir framhald verkefnisins sem stendur yfir í tvö ár.

Næsti sameiginlegi fundur verður haldinn hér á Íslandi í júní.  Á þeim fundi á meðal annars að prufukeyra ýmislegt sem snýr að námsefninu sem  nú er verið að útbúa í hverju landi fyrir sig.  Auk þess verður fyrsta útgáfa af borðspilinu prufukeyrð.  Það eru því spennandi tímar framundan og fjölbreytt vinna sem bíður okkar í Hugarafli í tengslum við þetta viðamikla og gefandi verkefni.