Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Hugarafl stofnar stuðningshóp fyrir tölvufíkla

By september 15, 2016No Comments

Samtökin Hugarafl standa fyrir málþingi í kvöld um tölvufíkn en Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson sem glímdi við tölvufíkn mun flytja fyrirlestur og segja frá sinni reynslu. Hann hefur haldið fjölda fyrirlestra um tölvufíkn og heldur úti heimasíðu um fíknina, en Eiríkur Guðmundsson verkefnisstjóri hjá Hugarafli segir í samtali við Vísi að tölvufíkn sé skelfilegt vandamál.

„Tölvufíknin splundrar heimilinu eins og önnur fíkn og þetta er bara skelfilegt vandamál. Þorsteinn hélt fyrirlestur hjá okkur í vor og hann snerti mikið við fólki. Við ákváðum því að halda málþingið og fá Þorstein aftur til okkar, og svo kviknaði sú hugmynd í framhaldinu að stofna stuðningshóp fyrir tölvufíkla sem myndi hittast vikulega hérna hjá Hugarafli,“ segir Eiríkur.

Hann segir samtökin renna dálítið blint í sjóinn með hversu margir muni mögulega sækja í stuðningshóp fyrir tölvufíkla. Ekki sé hægt að setja nákvæma tölu á það hversu margir glími við tölvufíkn.

„Það er oft erfitt að viðurkenna og það getur jafnvel verið erfitt að fá fólk út úr húsi. Það er því miður þannig að það eru til fá úrræði við þessari fíkn en við vonumst til að öðlast þekkingu með stuðningshópnum til að þróa einhvers konar meðferðarúrræði hér á landi,“ segir Eiríkur.

Málþing Hugarafls um tölvufíkn hefst klukkan 18 í kvöld og stendur til klukkan 20. Það fer fram í Borgartúni 22 á 3. hæð og er opið öllum.

SUNNA KRISTÍN HILMARSDÓTTIR SKRIFAR
www.visir.is