Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Íslensk ungmenni eru lyfjuð og líður illa

By janúar 9, 2017No Comments
street-1026246_960_720

Mynd: Pixabay.com

Íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi. Enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára. 

Allt þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar sem ber saman heilbrigðismál Norðurlanda. Skýrslan dregur upp dökka mynd af geðheilbrigðismálum á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd. Ísland sker sig skýrt frá öðrum Norðurlöndum í nær öllum flokkum sem varða geðheilbrigði meðan tölfræði í öðrum flokkum er í takt við tölfræði á Norðurlöndum. Athygli vekur að neysla Íslendinga á lyfjum sem tengjast ekki andlegum kvillum er mjög sambærileg við neyslu á Norðurlöndum. Einungis tvær undantekningar eru á því, Íslendingar nota meira af sýklalyfjum og magasárslyfjum en aðrir Norðurlandabúar.

Þunglyndislyfjamet

Íslendingar nota helmingi meira en aðrir Norðurlandabúar af róandi lyfinu benzodiazepine og afleiðum þess. Lyfið er mjög ávanabindandi og notað gegn kvíða. Íslendingar slá líka öll met í notkun á róandi lyfjum og svefnlyfjum en til samanburðar taka Íslendingar fimm sinnum meira af slíkum lyfjum en Danir.
Ekkert land á Norðurlöndum kemst nálægt neyslu Íslendinga á ýmsum tegundum þunglyndislyfja. Neysla á slíkum lyfjum hefur aukist ár frá ári síðustu tíu ár. Í dag neyta Íslendingar um helmingi meira af slíkum lyfjum en Finnar. Íslensk ungmenni taka margfalt meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra. Íslensk börn, yngri en 14 ára, taka um tuttugu sinnum meira af slíkum lyfjum en jafnaldrar. Notkun íslenskra kvenna á þunglyndislyfjum er áberandi mikil og eykst með aldri. Íslenskar stúkur, á aldrinum 15 til 24 ára, taka meira af þunglyndislyfjum en aldraðar konur á öðrum Norðurlöndum, en sá hópur tekur yfirleitt mest af slíkum lyfjum.

Styttri dvöl á geðdeild

Sjálfsmorðstíðni á Íslandi er orðin svipuð og í Finnlandi, sem hefur lengst af haft langhæstu tíðni Norðurlanda. Munurinn á löndunum tveimur er þó sá að tíðnin er að falla í Finnlandi meðan hér á landi er hún að aukast örlítið. Helsti munurinn á Finnlandi og Íslandi er að hér er sjálfsmorðstíðni talsvert hærri en hjá yngstu körlunum og hjá eldri borgurum af báðum kynjum.
Íslendingar dvelja styst allra á geðdeild þó innlagnir séu sambærilegar og á öðrum Norðurlöndum. Hér á landi er meðaldvöl á geðdeild um 11 dagar meðan í Noregi er meðaldvöl 21 dagur og í Finnlandi 35 dagar. Meðaldvöl í Svíþjóð og Danmörku er þó einungis örlítið lengri en á Íslandi. Rétt er að taka fram að íslenska tölfræðin nær einungis til þeirra sem eru minna en þrjá mánuði á geðdeild sem gæti skekkt myndina. Einungis í Færeyjum eru færri innlagnir á geðdeild en á Íslandi. Líkt og hefur ítrekað komið fram eru frávísanir frá geðdeild algengar á Íslandi.
Ísland sker sig jafnframt úr í neyslu á ADHD-lyfjum, sem er umtalsvert meiri hér í öllum aldursflokkum, óháð kyni, miðað við önnur Norðurlönd. Hjá unglingum af báðum kynjum er neyslan helmingi meiri en í Svíþjóð, sem kemst næst okkur í neyslu á slíkum lyfjum. Um 13 prósent allra íslenskra drengja, á aldrinum 10 til 14 ára, taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en tíðkast á öðrum Norðurlöndum en Svíþjóð kemst næst Íslandi með um 5 prósent hlutfall.

Skortur á úrræðum

Reykjavík

Mynd: Wikimedia commons

Ólafur Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Landlækni, segir að það sé helst tvennt sem skýri þessa tölfræði, annars vegar skortur á úrræðum við geðrænum vandamálum og offramboð á geðlyfjum. „Það er alveg ljóst að þjónustan hérna virðist vera öðruvísi en er annars staðar. Við höfum gert athugasemdir við þetta og þetta stendur á þeim læknum sem eru að ávísa þessum lyfjum. Okkar tilfinning er að sé of mikið aðgengi að þessum lyfjum,“ segir Ólafur. Hann bendir á að einn augljós munur á Íslandi og öðrum löndum sé að á Íslandi mega allir læknar ávísa ADHD-lyfjum meðan á öðrum Norðurlöndum séu það einungis sérfræðingar sem geta ávísað slíkum lyf. Hann vonast til að með tilkomu lyfjagagnagrunns á síðasta ári muni ávísun þessa lyfja minnka.
Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Landlækni og geðhjúkrunarfræðingur, tekur undir með Ólafi og segir að aðgengi að meðferð við andlegum erfiðleikum sé ekki nægilega gott á Íslandi. „Það er komin ný geðheilsustefna og eitt af því sem var talað um að bæta er að fjölga geðheilsustöðvum þannig að á höfuðborgarsvæðinu væru þrjár stöðvar. Það er fullt af góðri þjónustu núna en fólk verður að hafa mikið fyrir því að leita eftir henni og það er það sem við verðum að skoða. Og hún kostar heilan helling, það er bara þannig. Síðan verðum við að skoða hvað við getum gert fyrir börn og ungmenni, eins og BUGL-ið, þannig að allir séu að róa í sömu átt,“ segir Salbjörg.

Sólarhringsþjónusta nauðsynleg
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, vakti mikla athygli á dögunum þegar hann tjáði sig opinskátt um þunglyndi sitt og hefur sagst ætla að leggja áherslu á úrbætur í geðheilbrigðiskerfinu. Hann segir að málið snúist fyrst og fremst um skort á fjármagni og aðstöðu. „Fólk er ekki lagt inn nema vera í bráðri lífshættu og það mat getur verið mjög erfitt þegar viðtalið er stutt og læknirinn þekkir kannski illa sögu viðkomandi, það fylgir þessum sjúkdómi að sjúklingurinn á mjög erfitt með að meta eigin hættu sjálfur og ef hann ætlar virkilega að fyrirfara sér er óvíst að hann segi hreinskilið frá því. Þar fyrir utan er engin sólarhringsþjónusta, fólk sem lendir í slæmu kasti þarf jafnvel að fara á slysó og bíða þar upp á von og óvon.Það myndi strax róa mig töluvert ef ég vissi að fólk fengi strax aðstoð hvenær sem er, ég hef átt þrjá vini sem fyrirfóru sér og allir gerðu það að nóttu til,“ segir Gunnar Hrafn.

Grein birtist upphaflega á http://www.frettatiminn.is/