Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Læknar sviptir leyfi til að ávísa fíknilyfjum

By desember 5, 2016No Comments
Allir læknar sem ávísa ávanabindandi lyfjum eru nú undir ströngu eftirliti Landlæknisembættisins.

Allir læknar sem ávísa ávanabindandi lyfjum eru nú undir smásjá Landlæknisembættisins. Læknar hafa á árinu misst leyfi til að ávísa ávanabindandi lyfjum eftir að upp komst um of miklar ávísanir þeirra á ADHD-lyfjum.

Þetta staðfestir Ólafur B. Einarsson, sem starfar við eftirlit Landlæknisembættisins með ávísunum lækna. „Ég get ekki gefið upp fjöldann en við höfum þurft að grípa til þess ráðs á árinu að taka af læknum leyfi til að ávísa ávanabindandi lyfjum. Allir læknar eru nú undir stöðugu eftirliti okkar og vandlega er gætt að læknar ávísi ekki ADHD-lyfjum að óþörfu,“ segir Ólafur.

Hann bendir einnig á að búið sé að koma í veg fyrir svokallað „læknaráp“ með því að gera kerfið gegnsærra. „Við höfum hins vegar gagnrýnt lyfjagreiðslunefnd fyrir það að hafa hvata fyrir því að taka stóra skammta í einu af ávanabindandi lyfjum. Einnig með svefnlyfið Immovan sem gefið hefur verið út fyrir börn, 30 stykkja pakki af þeim töflum er ódýrari en 10 stykkja pakki. Þetta höfum við gagnrýnt og sent lyfjagreiðslunefnd bréf þess efnis.“

Ólafur B. Einarsson

Sama má segja með Ritalin. Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði af 90 stykkja pakkningum en ekki pakkningum sem innihalda 30 stykki. Þessu þarf að breyta að mati Landlæknisembættisins.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að um þremur milljónum dagskammta af ADHD-lyfjum var ávísað á síðasta ári og að hluti þeirra fari á svartan markað. Þröstur Emilsson, formaður ADHD-samtakanna, gagnrýnir Sjúkratryggingar fyrir að spyrða saman ADHD-sjúklinga og alvarlega veika fíkla.

„Það er ekki sæmandi fyrir Sjúkratryggingar að blanda saman misnotkun fíkla og notkun einstaklinga sem fengið hafa ADHD-greiningar samkvæmt klínískum viðmiðum landlæknis. Fíklar eru dauðveikir einstaklingar sem fá alltof fá úrræði og það er skömm okkar að koma þeim ekki til aðstoðar.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu og síðar á vísir.is