Nýliðar í Hugarafli

Verið velkomin!

Verkefnastjórar Hugarafls taka gjarnan á móti nýliðum, vinsamlegast hafið samband í síma 414-1550 eða á netfanginu hugarafl@hugarafl.is. Boðið er upp á stutt kynningarviðtal byggt á þörfum einstaklingsins þar sem starfsemi félagsins er kynnt, húsnæðið skoðað og sýnt hvað er í boði innan veggja Hugarafls.

Að loknu kynningarviðtali er nýliðum boðið upp á tengil sem mun styðja við fyrstu skrefin í Hugarafli og þeim býðst svo að taka þátt í dagskrá Hugarafls. Dagskráin er fjölbreytt og býður uppá ýmsa valmöguleika svo sem Hugaraflsfundi, umræðuhópa um bata, valdeflingu, boðið er uppá jóga, virknihópa, fræðslu og fleira. Sjá stundaskrá sem er uppfærð reglulega. Unghugar taka á móti nýjum einstaklingum á miðvikudögum kl. 10:45 fyrir þá sem eru 18-30 ára, eru búnir í kynningarviðtali og langar að taka þátt í ungliðastarfinu.

Lögð er áhersla á að nýliðar mæti á Hugaraflsfundi sem eru haldnir alla þriðjudaga og fimmtudaga kl.13:00-15:00. Á Hugaraflsfundum fer fram umræða um innra starf, verkefni utan húss, hugmyndafræðin er kynnt reglulega, ákvarðanataka fer fram og fleira. Allir félagsmenn eru hvattir til að nýta rödd sína og taka þátt í allri ákvarðanatöku sem fram fer.
Þátttaka í starfi Hugarafls byggir á eigin frumkvæði og drifkrafti hvers og eins einstaklings. Hingað kemur fólk sem er reiðubúið til að vinna í eigin bata með virkri þátttöku.