Saga Hugarafls

Við sem fimm stofnuðum Hugarafl á sínum tíma(2003) þekktumst og höfðum starfað saman áður á öðrum vettvangi og vissum að við höfðum töluvert „til málanna að leggja“. Ákváðum því að stilla saman strengi og byrjuðum að hittast í Grasagarðinum í Laugardal þar sem hugmyndirnar urðu til, þróuðust og urðu að veruleika.
Við höfðum háleit markmið þegar við ákváðum að stofna Hugarafl og fórum aðrar leiðir en vant var. Iðjuþjálfi og 4 notendur settu hugmyndir sínar í púkk og fylgdu eftir hugsjónum og löngun til að hafa áhrif og gera breytingar í okkar samfélagi. Samhliða Hugarafli var stofnuð geðheilsumiðstöð, Geðheilsa-eftirfylgd, sem Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra veitti brautargengi og við ákváðum að þetta tvennt færi vel saman. Hugarafl er sjálfstæður hópur að öllu leiti með sjálfstæðan rekstur, en er í virku samstarfi við teymi Geðheilsu-eftirfylgdar. Hugarafl starfar í húsnæði Geðheilsu-eftirfylgdar og hefur þannig góða aðstöðu fyrir alla starfssemi sem fer fram innan hópsins.
Félagasamtökin Hugarafl og eftirfylgdin innan Heilsugæslunnar veita stuðning í bataferli sem byggir á að efla geðheilsu og tækifærin í daglegu lífi. Sá sem slæst með í för eða óskar eftir stuðningi, kynnist því bæði faglegum stuðningi og þekkingu geðsjúkra og það getur orðið sameiginlegt veganesti í bataferlinu.
Í Hugarafli eru nú um 270 félagsmenn og starfið hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Í viku hverri eru haldnir tveir fundir þar sem starf Hugarafls er rætt, verkefni rædd og staðan á þeim, hugmyndafræði valdeflingar er á dagskrá einu sinni í viku, batamódelið er einnig rætt einu sinni í viku, hvað er efst á baugi hjá hverjum og einum og áfram mætti telja. Fagfólk og notendur starfa saman og taka sameiginlegar ákvarðanir. Öll umræða fer fram á jafningjagrunni, hver og einn er hvattur til að láta rödd sína heyrast, hafa skoðun, koma henni á framfæri og taka þátt. Þessi vettvangur er til þess ætlaður að nýta reynslu þeirra er þekkja geðraskanir og vera uppbyggjandi í bataferli hvers og eins. Einnig að deila reynslunni og vera hvort öðru fyrirmynd og stuðningur. Markmið hópsins eru þau að hafa áhrif á íslenskt geðheilbrigðiskerfi, að minnka fordóma, vera sýnileg í gegnum ýmiskonar verkefni og opinni þátttöku í samfélagsumræðu, stuðla að aukinni þekkingu um bata og bataferli, að efla samstarf notenda og fagfólks og sýna það í verki, stuðla að breydd í þjónustu við fólk með geðraskanir og stuðla að auknum mannréttindum fólks með geðraskanir. Valdefling og batamódelið er markvisst notað sem hugmyndafræði og aðferð til að efla starfið og einstaklinginn. Hópurinn virkar þannig sem forvörn, uppbygging í bataferli og endurhæfing.
Hugarafl hefur með starfi sínu haft mikil áhrif og í mörg ár hefur verið sótt í hópinn vegna stefnumótunar innan ráðuneyta, Reykjavíkurborgar og Landspítalans svo fátt eitt sé nefnt. Leitað er til hópsins með kynningar á geðrækt, reynslu fólks með geðraskanir, bataferli, valdeflingu og batamódelinu.
Hugarafl er langstærsti virki notendahópur á Íslandi og ekki er vitað til þess að svo stór hópur notenda sé virkur meðal frændþjóða okkar á norðurlöndum.