Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Sálfræðimeðferð – réttindi eða forréttindi?

By febrúar 10, 2016No Comments

Hrund Þrándardóttir, formaður Sálfræðingafélags Íslands skrifar í DV.

Hrund Þrándardóttir, formaður Sálfræðingafélags Íslands.

Hrund Þrándardóttir, formaður Sálfræðingafélags Íslands.

Í nýlegu viðtali á visir.is lýsir ung kona því að hún hafi verið í sálfræðimeðferð við kvíða og þunglyndi sem hafi borið góðan árangur. Henni hafi hins vegar brugðið þegar hún áttaði sig á kostnaðinum sem var mikill. Sálfræðimeðferð er nefnilega ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum líkt og flest önnur heilbrigðisþjónusta.

Sálfræðingafélag Íslands hefur ítrekað fundað með yfirvöldum og bent á þetta ósamræmi í niðurgreiðslu á heilbrigðisþjónustu og lýst áhyggjum af takmörkuðu aðgengi almennings að þjónustu sálfræðinga hjá ríki og sveitarfélögum sem er m.a. tilkomið vegna langra biðlista og/eða skertrar þjónustu.

Klínískar leiðbeiningar byggja á bestu þekkingu hverju sinni, meðal annars út frá rannsóknum á árangri meðferðar og er markmiðið með þeim að vísa veginn í átt að bestu mögulegu meðferð með sem minnstri áhættu og án óhóflegs kostnaðar.

Hérlendis hafa klínískar leiðbeiningar sem segja til um greiningu og meðferð þunglyndis og kvíða verið samþykktar af Landlæknisembættinu. Samkvæmt þeim ætti sálfræðimeðferð, nánar tiltekið hugræn atferlismeðferð, að vera fyrsta meðferðarval við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi. Það er einmitt meðferðin sem bar góðan árangur hjá ungu konunni en hún þurfti að greiða fyrir úr eigin vasa. Meðferð sem hún myndi kjósa að halda áfram í ef hún hefði efni á því. Meðferð sem rannsóknir hafa sýnt að nýtist og gagnast best, ekki einungis fyrir einstaklinginn heldur einnig fyrir þjóðfélagið.

Sálfræðiþjónusta borgar sig. Rannsóknir hafa sýnt að ef rétt er haldið á spilunum, ef farið er eftir klínískum leiðbeiningum og sú meðferð nýtt sem gagnast best, fækkar þeim sem flosna upp úr námi eða vinnu, veikindadögum fækkar og einstaklingum á örorkubótum fækkar. Þar sem sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd eiga hins vegar margir þeirra sem kljást við kvíða og þunglyndi ekki kost á að nýta sér slíka meðferð. Meðferð þar sem fólki eru kenndar leiðir til að kljást við sinn vanda í daglegu lífi, fyrirbyggja frekari vanda og hámarka lífsgæði sín.

Fólk á að hafa raunverulegan aðgang að þeirri meðferð sem virkar best. Sálfræðimeðferð fyrir þá sem á þurfa að halda á að teljast til réttinda, ekki forréttinda.

Grein birtist upphaflega hér:  http://www.visir.is/salfraedimedferd—rettindi-eda-forrettindi-/article/2015151008978