Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Skjólhús – nútímalegur valmöguleiki í nærumhverfi

By nóvember 27, 2015No Comments
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2015.

Greinarhöfundar eru allir í Skjólhúsnefnd Hugarafls. Mynd: Hafrún Kr. Sigurðardóttir

Í ljósi umræðu í samfélaginu um takmarkaða þjónustu við fólk sem veikist andlega, lendir í krísu eða áföllum, viljum við kynna fyrir þjóðinni verkefni sem unnið hefur verið að innan Hugarafls um nokkurt skeið.  Verkefnið hefur fengið nafnið Skjólhús og er hugsað sem nýr og nútímalegur valmöguleiki í nærumhverfi notenda og tekur mið af þörfum þeirra og aðstæðum.  Í þessari grein viljum við kynna verkefnið fyrir lesendum og benda á það sem viðurkennt úrræði.

Verkefnið er unnið að erlendri fyrirmynd og ýmist kallað Safe House eða Rose House.  Slík hús eru nú starfrækt í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar er boðið upp á sólarhringsþjónustu fyrir fólk sem veikist andlega eða á í tilfinningalegri krísu og þarf samtal sem allra fyrst.   Vinnan byggist fyrst og fremst á jafningjastuðningi/notendastuðningi en rannsóknir sýna að slíkur stuðningur nýtist vel í bataferli fólks.

Starfsmenn Skjólhúss eru bæði notendur í bata og fagaðilar sem vinna saman á jafningjagrundvelli. Um leið og gestur hefur samband við Skjólhús fær hann strax tengilið sem hann getur alltaf leitað til bæði á meðan á dvöl stendur og eftir að dvöl lýkur. Miðað er við að sólarhringsúrræðið vari í 4-10 daga og eftir það er umfangsmikil eftirfylgd. Lögð er áhersla á að gestir Skjólhúss nái lágmarksvirkni og jafnvægi og geti farið að fást við fyrri verkefni sín. Ferlið er unnið með þarfir hvers og eins að leiðarljósi og „leiðirnar“ að bata og lágmarksjafnvægi eru ólíkar og fara eftir þörfum hvers og eins. Lögð er áhersla á að gesturinn sé við stjórnvölinn allan tímann. Hann kemur á sínum forsendum í Skjólhúsið, en fær handleiðslu frá notendum í bata og fagaðilum.

Við höfum lagt mikla vinnu í að kynna okkur hugmyndafræði Rose house og Safe house og þar er mikið magn upplýsinga til að vinna úr. Einnig hafa verið skoðaðar rannsóknir um Batamódelið og Valdeflingu en sú hugmyndafræði styður mjög vel við hugmyndafræði Safe House og hefur sannreynt sig í starfsemi Hugarafls. Búið er að kynna verkefnið í samfélaginu og hefur það fengið jákvæðar undirtektir. Til að Skjóhús verði að veruleika þurfum við stuðning og fjármagn. Við höfum fundið það sterkt hér í Hugarafli og samfélaginu öllu að gífurleg þörf er fyrir þjónustu af þessu tagi. Við lítum á þessa þjónustu sem sveigju í hugmyndafræði eða hreyfingu í þá átt að hafa væntingar um að þjóðfélagið og menningin sé að þróast í átt að heilbrigði og vellíðan. Þar sem gagnkvæm virðing er viðhöfð og heilsa og jafnvægi einstaklingsins sé eftirsóknarvert verkefni. Það er okkar markmið að hið góða starf þjónustunnar verði viðurkennt og þegið með þökkum inn í almenna heilsugæslu í þjóðfélaginu á komandi árum. Góð geðheilsa er undirstaða góðs heilsufars og geðheilbrigði er undirstöðuatriði hvað varðar mannauð þjóðar. Þetta úrræði verður eitt af framlögum notenda í að bæta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Skjólhúsnefnd Hugarafls

Sigurborg Sveinsdóttir
Þóra Kristín Stefánsdóttir
Kristín Sigríður Garðarsdóttir
Kristinn Heiðar Fjölnisson