Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Stóraukinn kvíði stúlkna er alvarlegt vandamál

By apríl 26, 2016No Comments
Frá árinu 2000 hefur kvíði unglingsstúlkna farið stigvaxandi. Aðeins á síðastliðnum fjórum árum hefur meðaltalið yfir landið vaxið um 10%. Í dag finna um 17% stúlkna og 4% drengja í 9. og 10. bekk oft eða alltaf fyrir alvarlegum kvíðaeinkennum. Í Vesturbæ Reykjavíkur eru 20% stúlkna haldnar kvíða en í Breiðholti um 27% stúlkna, sem er 20% hækkun frá árinu 2009.

Þessar niðurstöður eru í takt við þær breytingar sem sérfræðingar sem starfa með börnum og unglingum hafa fundið fyrir síðastliðin ár, kvíði og þá sérstaklega unglingsstúlkna er að aukast. Samfélagsmiðlar, prófkvíði, inntaka í menntaskóla, fjárhagur foreldra og frelsisskerðing barna eru þeir þættir sem sérfræðingar nefna sem mögulega uppsprettu kvíðans. Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus í félagsfræði við HÍ, segir aukinn kvíða ungra stúlkna vera stórmál sem við verðum að veita athygli. „Þegar við fáum svona sterkar vísbendingar um miklar breytingar á jafn stuttum tíma þá verður maður að draga þá ályktun að það sé eitthvað í umhverfinu sem hafi breyst.“

Kvidi

Hækkunin heldur áfram

„Við höfum verið að heyra af miklum kvíða af vettvangi og ákváðum því að skoða hvort þetta væri mælanlegt. Ég byrjaði á því að skoða meðaltalið í dag og miða það við árið 1997 en það passaði ekki við þessa sterku upplifun af vettvangi. Þess vegna fór ég að skoða stelpurnar sérstaklega og þá komu þessar sláandi tölur í ljós, segir Ingibjörg Eva Þórisdóttir, doktorsnemi í sálfræði við HR.

Ingibjörg starfar fyrir Rannsóknir og greiningu þar sem hún hefur verið að skoða niðurstöður kannana á þunglyndi og kvíða hjá börnum og unglingum frá árinu 1996 til 2016. Við nánari athugun á gögnunum má sjá að kvíði unglingsstúlkna hefur farið stigvaxandi frá árinu 2000 og vaxið verulega hratt frá árinu 2009. Sá hópur sem hefur það verst eru stelpur á aldrinum 13-15 ára. „Það er greinilega „trend“ í kvíða hjá stúlkum,“ segir Ingibjörg. „Tölurnar eru ekki svona hjá strákunum, þeir eru að mælast undir 4% en síðastliðin fjögur ár hefur kvíðinn hjá stúlkum hækkað úr tæpum 8% í tæp 17%. Við vorum að klára að greina gögnin frá 2016 en fram að því héldum við og vonuðum að þetta væri árgangaris. En það varð ekki, hækkunin heldur áfram.“

Tengsl milli samfélagsmiðla og kvíða

Ingibjörg segir erfitt að greina hvað valdi en að gögnin sýni tengsl hjá stúlkum milli notkunar samfélagsmiðla og kvíða. „Stelpur sem upplifa kvíða eru mikið á samfélagsmiðlum, því meiri tími á samfélagsmiðlum því meiri kvíði og þunglyndi og þetta er í takt við erlendar rannsóknir.

25934 Kvidi FORS

Það er greinilega eitthvað í gangi þó við vitum ekki enn almennilega hvað er að gerast. Niðurstöðurnar minna okkur á að vera alltaf á verðinum þegar kemur að líðan barnanna okkar. Þetta eru svakalegar tölur og eins og stendur erum við að hamast í gögnunum til að reyna að skilja hvað þetta getur mögulega verið.“

Lestu líka: Kvíði snýst um öryggi og vissu

Fjórða hver stúlka í Breiðholti með kvíðaeinkenni

Undanfarin ár hafa þjónustumiðstöðvar hverfa í Reykjavík skimað eftir einkennum kvíða og þunglyndis hjá nemendum níunda bekkjar í samstarfi við gagnfræðaskólana. Þjónustumiðstöð Breiðholts hefur skimað eftir kvíða hjá unglingum í 9. bekk frá árinu 2009 og Þjónustumiðstöð Vesturbæjar frá árinu 2012. Í Vesturbæ voru 20% stúlkna og 3% drengja haldin kvíða árið 2015. Í Breiðholti voru 7,1% stúlkna og 4,1% drengja haldin kvíða árið 2009 en sú tala var komin upp í 26% fyrir stúlkur árið 2015 og 10,4% fyrir stráka.

Áhrif kreppunnar?

Hákon Sigursteinsson, sálfræðingur og deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, segir erfitt að meta nákvæmlega það sé sem valdi þvílíkri aukningu í kvíða og depurð, það sé svo margt sem spili inn í. Honum finnst þó líklegt að við séum enn súpa seyðið af kreppunni.
„Reynsla Finna eftir kreppuna var sú að alvarleg kvíða- og þunglyndiseinkenni fóru að gera vart við sig fimm árum eftir kreppu. Menn berja sig í gegnum skaflana fyrst eftir áfall en svo leiðir eitt af öðru og niðurstaðan er að aukinn tilfinningalegur vandi kemur upp seinna. Fjölskyldur ná kannski ekki endum saman og það verða stór og lítil áföll sem geta leitt meðal annars til skilnaða sem fara illa í krakka og valda þeim miklum áhyggjum.“

Lestu líka: Krakkar sofa ekki fyrir áhyggjum

Verðum að horfast í augu við kvíðann

„Kvíði er einn þeirra þátta sem hamlar börnum á grunnskólaaldri,“ segir Halldór K. Júlíusson, sálfræðingur og forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, en um þriðjungur tilvísana frá skólum og foreldrum grunnskólabarna til sérfræðiþjónustunnar í Vesturgarði varðar kvíða. Annar þriðjungur tilvísana varðar einbeitingarvanda og athyglisbrest og um þriðjungur er af öðrum ástæðum. Þjónustumiðstöðvarnar hafa boðið þessum börnum í viðtal og á sérstök kvíðastjórnunarnámskeið. „Þetta er áhyggjuefni þar sem kvíði meðal barna getur verið mjög hamlandi og íþyngjandi,“ segir Halldór. „Ástæður kvíða eru að hluta erfðir en að hluta er kvíði til kominn vegna umhverfis og uppeldis. Af þeirri ástæðu er hægt að fyrirbyggja þróun kvíða hjá mörgum börnum með því að kenna foreldrum að taka á kvíðaeinkennum og hjálpa börnunum að horfast í augu við og sigrast á ástæðulausum ótta strax áður en kvíðinn verður vandamál.“

Greinin birtist upphaflega á frettatiminn.is