Skip to main content
Fréttir

Strong Young Minds þjálfun í Rúmeníu

By nóvember 21, 2017No Comments

Hugarafl hefur verið í samstarfi við ýmis lönd í Evrópu í gegnum Erasmus+ í rúm tvö ár.  Dagana 2.-10. nóvember fóru fjórir félagar frá Hugarafli á námskeið sem ber titilinn
Strong Young Minds sem haldið var í Măguri-Răcătău, í Rúmeníu.

Þjálfunin snérist um að prófa námskrá (curriculum) og borðspil sem hefur verið þróað af Hugarafli og samstarfsaðilum í verkefninu og notast er við óformlegar aðferðir til kennslunnar.

Markmið þess er að efla persónulegan, félagslegan og tilfinningalegan þroska hjá ungmennum. Námskeiðið er hluti af langtíma verkefni þar sem áherslan er á nýsköpun í menntun. Tilgangur verkefnisins er að búa til verkfæri til að bæta andlega heilsu ungmenna í Evrópu.

Alls voru 16 þátttakendur frá fjórum löndum, frá Spáni, Portúgal, Íslandi og Rúmeníu. Fjölbreytni var í fyrirrúmi en þátttakendur voru ýmist kennarar, þjálfarar, fólk með reynslu og sálfræðingar. Þjálfarar námskeiðsins voru þrír talsins, en einnig voru tveir myndatökumenn sem sáu til þess að ná upptökum af þjálfuninni sem notaðar verða til að kenna námsefnið.

Þátttakendur fengu m.a. að spreyta sig sem þjálfarar og fóru í tvo skóla í Rúmeníu til þess að prófa námsefnið sem var virkilega skemmtileg upplifun í alla staði. Kennarar skólans voru hæst ánægðir með námsefnið og óskuðu meira að segja eftir því að þátttakendur í þjálfuninni myndu fara í fleiri bekki skólans.

Þátttakendur voru virkilega ánægðir með þjálfunina þrátt fyrir að hún hafi verið krefjandi á köflum og taka með sér mikinn lærdóm heim til Íslands. Markmiðið er að nýta þennan lærdóm á næstkomandi vikum og mánuðum og vera með þjálfanir bæði í Hugarafli og með ungmennum á Íslandi.