Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Vinsamlegast missið ekki vitið utan skrifstofutíma

By ágúst 24, 2016No Comments

„Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt barst lögreglu tilkynning um konu í sjálfsvígshugleiðingum. Konan var vistuð í fangageymslum í nótt þar sem hún hótaði að fara út í sjóinn þegar hún yfirgæfi lögreglustöðina.“ – Úr dagbók lögreglunnar

Gunnar Hrafn Jónsson2

Höfundur: Gunnar Hrafn Jónsson

Eins og hljómsveitin R.E.M. söng á sínum tíma þá líða allir þjáningar. Allir gráta. Hér á landi sem víðar er hins vegar til undirstétt fólks sem líður sálarkvalir á sjúklegu stigi. Þeir einstaklingar kallast í almennri umræði stundum þunglyndir, stundum geðveikir, stundum bara aumingjar. Sjúkdómurinn er oft falinn, eins og margir geðsjúkdómar, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að minnst 350 milljónir manna um allan heim þjáist af alvarlegu þunglyndi á því stigi að það teljist sjúkdómur. Sjúkdómurinn getur oft leitt til dauða. Sama stofnun segir að sjálfsvígstíðni á Íslandi sé hærri en víðast hvar í heiminum eða 15 á hverja 100.000 íbúa. Það þýðir að um 45 Íslendingar fyrirfara sér á hverju ári.

Þessi tilvitnun í dagbók lögreglunnar hér að ofan er nýleg en alls ekkert einsdæmi. Raunar veit ég sjálfur um dæmi þess að alvarlega veikt fólk í sjálfsvígshugleiðingum hafi ekki fengið hjálp á ögurstundu. Í minnst einu tilviki var það vegna þess að viðkomandi veiktist utan skrifstofutíma. Sá fór í geðrof þegar bráðamóttaka geðdeildar var lokuð og lögreglan gat ekkert gert nema að ráðleggja viðkomandi – sem var í geðrofi – að fara á Slysamóttökuna og bíða þar á háannatíma um helgi þegar meginþorri þeirra sem þangað leita eru slasaðir eftir drykkju. Það er ekki ákjósanlegt umhverfi fyrir fólk í geðrofi.

Nafnið “Bráðamóttaka Geðsviðs” felur í sér að þangað leitar fólk aðeins í mikilli neyð og hefði maður búist við að tekið væri við öllum sjúklingum í lífshættulegu ástandi. Það er eini staðurinn þar sem fólk með geðraskanir getur leitað eftir bráðri aðstoð án þess að eiga bókaðan tíma. Bráðamóttakan er hins vegar aðeins opin kl. 12.00 – 19.00 virka daga og kl. 13.00 – 17.00 um helgar. Fólk er vinsamlegast beðið um að missa ekki vitið utan skrifstofutíma og bíta á jaxlinn fram á morgun frekar en að deyja. Það er hægara sagt en gert fyrir alvarlega veikt fólk og maður veltir fyrir sér hvort einhverjum dytti í hug að bjóða hjartveikum upp á slíka kosti.

Þrír góðir vinir mínir, allir ungir menn, hafa dáið úr þessum sjúkdómi. Þrisvar á ári kveiki ég á kerti til að minnast lífa sem hefðu ekki þurft að fjara út svo snemma. Það er útilokað að segja mér annað en að lokanir á bráðamóttöku geðdeildar geti kostað mannslíf og ég er því miður nokkuð viss um að það hefur nú þegar gerst. Það er gjörsamlega ólíðandi að í samfélagi eins og Íslandi sé ekki hægt að vera með sólarhringsþjónustu fyrir fólk í bráðri lífshættu.

Við biðjum ekki þá sem verða fyrir slysum að binda sjálfir um sárin og þrauka til morguns en það er það sem við segjum við fólk með alvarlegar geðraskanir.

Ég þykist viss um að við getum gert betur og það kosti ekki hlutfallslega háar upphæðir að manna þessar vaktir og tryggja þannig sjúklingum jafnt aðgengi að bráðaþjónustu sama hvort um andleg eða líkamleg veikindi er að ræða. Það er ekki við starfsfólk Geðsvið að sakast, það gerir sitt besta við ómögulegar aðstæður, það er ríkisstjórnarinnar og Alþingis að bregðast við þessu skammarlega ástandi og það strax. Síðan mætti líka alveg biðjast afsökunar á því að þetta hafi nokkru sinni verið látið viðgangast.

Greinina birtist upprunalega hér.