Skip to main content
Fréttir

Youngminds Go Europe

By júlí 13, 2017No Comments

Fjóla ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra sem kom í heimsókn í Hugarafl á meðan námskeiðinu stóð.

Fjóla Kristín Ólafardóttir Hugaraflskona stóð fyrir verkefni síðastliðið vor sem kallast Youngminds go Europe. Verkefnið var fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem eru að nýta sér þjónustu Hugarafls, ásamt nokkrum úr ungmennahóp frá Hveragerði sem stofnaður var með stuðningi Hugaraflsmeðlima.

Fjóla er 25 ára gömul og byrjaði í Hugarafli í nóvember 2015. Hún var þá búin að vera að vinna í eigin bataferli í 9 ár og fór hún fljótlega að taka að sér ýmis valdeflandi verkefni innan Hugarafls eins og t.d. fræðslu, hópastarf og samherjaverkefni. Í maí 2016 fékk hún einstakt tækifæri til að kynnast starfi Erasmus+ þegar hún fór á ráðstefnu í Tallinn sem kallaðist Going International, en sú ráðstefna fjallaði um tækifærin innan Erasmus+ fyrir ungmenni og alla sem vinna með ungmennum. Going International ráðstefnan veitti Fjólu mikinn innblástur og upplifði hún nýja framtíðarsýn með óteljandi möguleikum sem hún taldi ekki vera raunhæfa áður. Á ráðstefnunni kynntist hún einnig þeim Marco og MarCus sem voru að vinna á ráðstefnunni. Þeir starfa sem þjálfarar víðsvegar um Evrópu í leiðtogaþjálfun, hópefli, markþjálfun fyrir vinnustaði, sjálfseflingu og alls kyns vinnu með ungu fólki. Hún náði mjög góðum tengslum við þá og þremur mánuðum eftir ráðstefnuna fóru þau að vinna saman að verkefni fyrir ungmennahóp á Íslandi. Með þessu verkefni vildi Fjóla veita ungmennahópi Hugarafls sömu reynslu og sýn og hún öðlaðist á ráðstefnunni í Tallinn og námskeiðið varð að veruleika í apríl síðastliðnum.

Skipulag og undirbúningur var í höndum Fjólu og þjálfaranna en undirbúningurinn hófst í desember 2016.

YGE Logo

Logo fyrir Youngminds Go Europe sem hannað var á námskeiðinu.

Námskeiðið var haldið á tveim stöðum, að Lækjabotnum og í Hugarafli. Fyrstu 3 dagana að Lækjarbotnum var aðal áherslan var lögð á hópefli og leiðtogaþjálfun, en seinni hlutinn fjallaði meira um tækifærin innan Erasmus+ og að læra að skrifa Erasmus+ verkefni. Kynntar voru aðferðir við skipulagningu nýrra verkefna og fékk hópurinn meðal annars að æfa það ásamt endurgjöf frá þjálfurum.

Námskeiðið hafði mikil áhrif á hópinn og hafði mikið að segja fyrir þátttakendur bæði sem einstaklinga og sem heild.

Þetta var fyrsta verkefni þeirra Marcos og MarCusar þar sem einungis er unnið með einn hóp á námskeiði en yfirleitt eru að minnsta kosti tveir hópar á hverju námskeiði og líka í fyrsta skipti þar sem þeir vinna með hóp sem vinna að bættri geðheilsu, og því hafði þetta verkefni líka mikil áhrif á þá.

Fjóla hefur verið að vinna í lokaskýrslu námskeiðsins í samvinnu við þjálfaranna, þar sem segir að frágangur verkefnisins hafi gengið vel og er hún hæst ánægð með útkomuna, bæði fyrir sig sjálfa sem þátttakanda og með afrekstur námskeiðsins. Út frá námskeiðinu bauðst henni einstakt tækifæri, að taka þátt í sjálfboðaliðaverkefni Erasmus+ sem hún telur að hún hefði ekki sótt um án reynslunnar sem hún öðlaðist við undirbúning og framkvæmd Youngminds Go Europe námskeiðisins.

Sjálfboðaliðaverkefnið eða European Voluntary Service (EVS), og með því fer Fjóla til háskólaborgarinnar Szeged í Ungverjalandi, þar sem hún mun dvelja í rúmar sex vikur. Í Szeged fær hún þjálfun í að undirbúa starf með ungmennum, lærir aðferðir óformlegrar þjálfunar og tekur þátt t í að þjálfa ungmenni í sumaræfingarbúðum. Þemað verður að kynna Ísland og íslenska menningu með óformlegum hætti.

Um leið og við í Hugarafli þökkum Fjólu fyrir allt sitt frábæra starf innan félagsins og í tengslum við Youngminds Go Europe, óskum við henni góðrar ferðar til Ungverjalands. Við fylgjumst spennt með þjálfuninni á facebook.

erasmus hugarafl